Síðasta þing og stjórn
Síðasta þing Flugmálafélags Íslands var haldið þann 10.apríl 2018 á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Á þinginu voru 14 þinggestir. Á þinginu var kynnt skýrsla stjórnar og sérgreinadeilda. Matthías Sveinbjörnsson var kjörinn sem forseti félagsins. Sjö stjórnarmenn voru kjörnir á þinginu og skiptu þeir með sér verkum á eftirfarandi hátt:
Varaforsetar:
Friðbjörn Orri Ketilsson - Flugfélagið Geirfugl
Kristján Sveinbjörnsson – Svifflugfélag Íslands
Ritari:
Kári Kárason – Geirfugl
Gjaldkeri:
Friðbjörn Orri Ketilsson - Flugfélagið Geirfugl
Meðstjórnendur:
Ágúst Guðmundsson - Fisfélag Reykjavíkur
Bergur Ingi Bergsson – AOPA Ísland
Kári Kárason – Jakar
Óli Öder– Fljúgðu slf.
Styrmir Ingi Bjarnason - Fisfélag Reykjavíkur
Aðildar og styrktarfélög Flugmálafélagsins eru:
1974, vélflugfélag
Atlantsflug ehf
Blue West Helicopters
Svifvængjafélagið Bólstri
Félag íslenskra einkaflugmanna
Fisfélag Reykjavíkur
Fljúgðu, vélflugfélag
Flugfélagið Ernir ehf.
Flugfélagið Geirfugl ehf.
Flugklúbbur Mosfellsbæjar
Flugklúbbur Selfoss
Flugskóli Íslands ehf.
Keilir Aviation Academy ehf.
Mýflug hf.
Norðurflug ehf.
Örninn - Hollvinafélag Flugsafns Íslands
Svifflugfélag Akureyrar
Svifflugfélag Íslands
Vængir
Vélflugfélag Akureyrar
Yakar Flugklúbbur Alþýðunna
Þyrluþjónustan ehf.
Þytur ehf.
Þytur,flugmódelfélag
Örninn - Hollvinafélag Íslands
Stjórn og stefna
Stjórn fundaði reglulega yfir árið og átti góð rafræn samskipti á milli funda. Stjórn vann eftir sömu stefnu og verið hefur síðustu ár sem er tilgreind í stefnu Flugmálafélagsins en þar segir:
Almennt
Stjórn félagsins vill beita sér fyrir jákvæðri umfjöllun um flug og auka samskipti milli aðildarfélaga. Það mun enn sem áður sinna hagsmunagæslu en þó leggja meira upp úr því að leita til aðildarfélaganna og styðja þau í þeim málum sem snúa beint að þeim. Félagið mun halda áfram að treysta alþjóðleg samskipti og sambönd.
Kynning út og inn á við
Stjórn félagsins hefur það að markmiði að kynna flug fyrir almenningin og efla áhuga á því. Það á jafnt við um aðildarfélög sem og þá sem standa fyrir utan það. Tilgangur félagsins hefur verið frá upphafi að „að efla áhuga fyrir flugsamgöngum hér á landi og til annarra landa og útbreiða þekkingu á flugmálum með þjóðinni” sem stjórn félagsins mun standa við.
Hagsmunagæsla
Félagið mun sinna hagsmunagæslu sem áður. Áherslubreyting verður þó gerð er varðar eignarhald. Þau mál sem snúa að ákveðnum aðildarfélögum munu vera rekin áfram að viðkomandi aðildarfélagi en þó með stuðningi FMÍ á meðan hagsmunamál er varða fleiri en eitt aðildarfélag og/eða flugið í heild sinni verða rekin áfram af FMÍ.
Félagið mun leggja áherslu á góð samskipti við:
-
Innanríkisráðuneyti
-
Samgöngustofu
-
Isavia
-
FAI og önnur alþjóðleg samtök
Traustur rekstur
Stjórn félagsins mun leitast eftir því að auka tekjur félagsins til þess að auka slagkraftinn. Mögulega verður framkvæmdastjóri ráðinn.
Samstarfið hefur verið gott og stjórnin samhent í því að vinna samkvæmt ofangreindri stefnu.
Viðburðir
Fjölmargir viðburðir voru á vegum Flugmálafélagsins á síðasta starfsári og hefur verið mikill stígandi í þátttöku á þeim. Ánægjulegt er að sjá nýliðun eiga sér stað og hátíðir félagsins virðast höfða vel til yngri kynslóðarinnar sem stjórn félagsins telur mjög jákvætt.
Flughátíðin Allt sem flýgur
Flughátíðin á Helluflugvelli var vel sótt og gekk afar vel. Það sem er einkennandi fyrir hátíðina er þátttaka mismunandi greina flugsins en þó má enn gera getur á því sviðið. Samstarf við sveitarfélagið hefur verið aukið á síðastliðnum árum en hátíðin nýtur mikils velvilja þeirra enda um kærkomna fjölbreytni og innspítingu um að ræða fyrir Hellu og nærsveitir. Stendur til að auka samstarfið enn frekar á næstu hátíð. Sú nýbreytni var þetta árið að vikuna fyrir hátíðina var haldið Íslandsmeistaramót í vél- og fisflugi sem verður endurtekið á þessu ári.
Íslandsmót í vél- og fisflugi
Íslandsmót var haldið í vél- og fisflugi eftir áralangt hlé. Erlendur dómari var fenginn til þess að aðstoða við undirbúning og skipulag en það var mál manna að mótið hefði tekist einstaklega vel. Þó vantaði aðeins uppá þátttöku en þeir mótsgestir sem gistu á svæðinu áttu tök á því að keppa í öllum þrautum mótsins á meðan hinir sátu fastir vegna veðurs í ýmsum landshlutum. Í vélflugi urðu Matthías Sveinbjörnsson ásamt syni sínum Sveinbirni Darra Íslandsmeistarar og í fisflugi varð Óli Öder Íslandsmeistari.
Flugsýning á Reykjavíkurflugvelli
Vegna veðurs var flugsýningunni, sem var skipulögð í sumarbyrjun, frestað til haustsins. Þrátt fyrir einbeitta andstöðu Reykjavíkurborgar gegn flugi sem lýsti sér í því að borgin hindraði komu erlendrar flugsveitar á sýninguna tókst sýningin einstaklega vel. Margmenni var á sýningunni og mikil ánægja meðal gesta. Sýningin hefur skapað sér sess í menningarlífi borgarinnar sem einn fjölsóttasti viðburður í henni. Hún er jafnframt besta leiðin fyrir flugsamfélagið að kynna sína starfsemi og ýta undir nýliðun í fluginu.
Mikil gleði og ánægja skein úr andlitum gesta á öllum aldri og mikið fjölmenni var á sýningunni þrátt fyrir dumbung og úrkomu. Það var mál manna að vel hefði tekist til þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður.
Morgunfundur um rafmagnsflugvélar
Í ágúst hélt félagið fund um rafmagnsflugvélar. Félagið fékk Pierre Duval, einn fremsta sérfræðingi heims í rafmagnsflugvélum til þess að fjalla um málið. Pierre hefur víðtæka reynslu á sviði rafmagnsflugvéla og hefur m.a. stýrt AIRBUS EFAN, rafmagns- flugvélaverkefni Airbus. Hann er þaulreyndur flugmaður á flestar gerðir flugvéla, starfaði um árabil sem flugblaðamaður og er nú forseti umhverfisnefndar Alþjóða flugmálafélagsins, FAI. Fundurinn gekk vel og vakti mikinn áhuga gesta en Flugmálafélagið mun leggja metna sinn í að fræða flugsamfélagið og almenning um það sem er að gerast á þessu sviði á næstu misserum en þróunin er hröð.
Grasrótar flug í Utah - kynning með Mark Patey
Í lok ágúst hélt Mark Patey kynningu á grasrótarflugi í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að fyrirlestur Mark hafi hreyft við mönnum en ástríða hans fyrir flugi er mikil og hvatti fundargesti til dáða. Mark er mikill íslandsvinur og talar t.a.m. íslensku eftir 18 mánaða búsetu á landinu. Hann og tvíburabróðir hans Mike hafa vakið mikla athygli í grasrótarflugi á heimsvísu og því var mikill fengur af því að fá Mark til þess að halda fyrirlesturinn.
Traustur rekstur
Rekstur Flugmálafélagsins ver með hefðbundnum hætti á árinu. Reynt var að auka tekjur með endurnýjun styrktar samninga við atvinnufélög og er flugdagurinn á Reykjavíkurvelli stærsti einstaki samningurinn. Stjórn hélt áfram að leita leiða til þess að fjármagna fullt stöðugildi hjá félaginu en hafði ekki erindi sem erfiði á árinu
Innlend starfsemi
Eldsneytismál - Innviðassjóður Almanna og Íþróttaflugs
Flugmálafélagið stofnaði hlutafélag um rekstur á ýmsum sviðum. Með hlutafélaginu er rekstur sem tengst sölu eldsneytis afmarkaður og seldi félagið um 3500 lítra af bensíni á árinu. Verið er að skoða frekari bensínsölu til að lækka eldsneytiskostnað félagsmanna aðildarfélaga Flugmálafélagsins.
Rekstur flugvalla
Um nokkurt skeið hefur Flugmálafélagið haft áhyggjur af þróun lendingarstaða. Þeir látnir drabbast niður og að endingu lokaðir - hver á fætur öðrum. Félagið hefur reynt að sporna gegn þessari þróun og lagt sitt af mörkum svo það sé haldið í horfinu. Baráttan hefur verið erfið og þrátt fyrir allt hafa hlutir þróast til verri vegar. Flugmálafélagið hefur leynt og ljóst verið að vinna að því að koma nánar að rekstri þessara lendingastaða. Annað hvort í gegnum ráðuneytið eða Isavia. Á síðastliðinum misserum hefur sú hugmynd fengið meiri hljómgrunn innan stjórnkerfisins og allt eins líklegt að eitthvað muni breytast í þeim efnum á næstunni.
Samgöngustofa
Flugmálafélagið hefur átt ágæt samskipti við Samgöngustofu. Samtal og tengsl eru góð og jafnan greiður aðgangur að starfsmönnum og samtali um ýmsa hluti. Félagið hefur aukið samstarf við SGS á sviði flugöryggis og funda af ýmsu tagi. Það er þó ljóst að aðhald félagsins verður að vera virkt. Það þarf að tryggja að sú hugsun sem EASA hefur talað fyrir þ.e. að flugsamfélaginu sé betur treyst fyrir flugöryggi festi sig í sessi innan SGS eins og annars staðar innan Evrópu.
Flugstefna
Í lok síðasta árs voru skipaðir starfshópar sem höfðu það að markmiði að móta og skila inn tillögu að flugstefnu fyrir Ísland. Þessi vinna er á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og er fyrirhugað að flugstefnan verði hluti samgönguáætlunar. Umfang vinnunnar er víðfeðmt og nær allt frá flugvöllum, loftslagsmálum, flugvernd, innanlandsflugi, varaflugvöllum, þjálfunarflugi, til aðgengi að mörkuðum, tolleftirliti, löggæslu og fleira.
Vinnan er skipulögð þannig að þrír starfshópar fjalla um afmörkuð svið og er síðan verkefnisstjórn yfir öllu verkefninu sem skipuð er verkefnisstjórum starfshópanna, formanni verkefnisstjórna og fulltrúum frá ráðuneytinu.
Verkefnisstjórn er skipuð eftirfarandi aðilum:
Helgi Björnsson, formaður, Ragnhildur Geirsdóttir, verkefnisstjóri hóps um alþjóðaflugvelli og flugrekstur, Víðir Smári Petersen verkefnisstjóri hóps um opinbert umhverfi og flugleiðsöguþjónustu og Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins, er verkefnisstjóri hóps um innanlandsflug, almannaflug, menntun og þjálfun.
Þrír stjórnarmenn í Flugmálafélaginu koma að þessari vinnu en hún er líkast til sú mikilvægasta sem er unnin um þessar mundir í hagsmunagæslu fyrir grasrótina.
Flugmálafélagið hefur kallað eftir því um nokkur skeið að mótuð sé stefna fyrir Ísland í flugmálum og fagnar því að þessi vinna sé farin af stað og mun styðja hana af fremsta megni.
Skoðanakönnun
Félagið setti í loftið skoðanakönnun innan flugsamfélagsins í þriðja sinn nú í vetur. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar og hafa nú þegar nýst í hagsmunagæslu félagsins. Flugmálafélagið hefur jafnan fengið góða umsögn og einkunn í könnuninni og bætir sig milli ára - sem er vel.
Fagráð um flugmál
Forseti félagsins á sæti í Fagráði um Flugmál sem er skipað af samgönguráðherra. Þar er vettvangur sem nýtist til þess að koma sjónarmiðum grasrótarinnar á framfæri og hefur það nýst ágætlega þó svo að skilningurinn megi alltaf vera meiri.
Logómál og kynningarstarf
Flugmálafélagið lét útbúa nýtt logo fyrir Flugmálafélag Íslands. Það verður notað í öllu kynningarstarfi félagsins.
Afmælisár
Árið 1919 var fyrsta flug flugvélar á Íslandi. Flugmálafélagið hóf undirbúning að afmælisárinu og er ætlunin að minnast 100 ára flugs á Íslandi með margvíslegum hætti. Meðal annars lét Flugmálafélagið útbúa logo í tilefni 100 ára afmælis ársins.
Erlend starfsemi
Flugmálafélagið hefur alla tíð tekið virkan þátt í erlendu starfi flugmálafélaga til þess að viðhalda og efla tengsl Íslands við önnur lönd. Þau tengsl eru verðmæt þegar kemur að því að læra af árangri annarra landa og mistökum. Sérstaklega er þessi starfsemi mikilvæg þegar kemur að regluverki og lagasetningu en íslenskt regluverk hefur til þessa þótt heldur stíft og óþarfalega langt gengið við þýðingu og innleiðingu erlendra reglna hérlendis.
Flugmálafélagið hefur átt samskipti við stjórnvöld og sótt leiðsögn til erlendra aðila hvað regluverk snertir.
Á liðnu ári var erlendi starfsemi með hefðbundnu sniði. Sérstaklega má þó nefna:
• Vélflugdeild sótti fundi AOPA erlendis.
• Svifflugdeild sótti fund Svifflugdeilda Flugmálafélaga Norðurlandanna.
• Svifflugdeild sótti fund Svifflugdeildar Europe Airsports(Europe Gliding Union)
• Fisdeildin sótti fund Svifdrekadeilda Flugmálafélaga Norðurlandanna.
• Forseti FMÍ og varforseti sóttu norðurlandaþing Flugmálafélag og er samstarf þar á milli gott.
Flugmálafélagið er með fulltrúa í öllum deildum Alþjóða Flugmálafélagsins FAI. Þessir fulltrúar fylgjast með því sem er að gerast í hverri deild með hagsmuni Íslands að leiðarljósi.
Fundi deilda FAI geta fulltrúar okkar sótt þegar hægt er.
Ágúst Guðmundsson situr í framkvæmdastjórn FAI.
Hann hefur setið í framkvæmdastjórn FAI frá 2014 sem fulltrúi Flugmálafélags Íslands og var endurkjörinn 2016 og 2018.
Flugmálafélagið annast útgáfu FAI Sporting Licence til félagsmanna aðildarfélaga en það skírteini er skilyrði fyrir þátttöku í alþjóðlegum mótum FAI.
Þátttaka íslenskra flugmanna á alþjóðamótum hefur aukist og fagnar Flugmálafélagið þeirri þróun. Svifvængjaflugmenn hafa verið sérlega virkir í þáttöku á alþjóðlegum mótum. Með þátttöku í alþjóðlegum mótum fá flugmenn stig á alþjóðlegum styrkleikalista svifvængjamanna hja FAI. Í lok árs voru 23 Íslenskir svifvængjaflugmenn á styrkleikalista FAI og náði Hans Kristján því að vera í sæti 160 af 10.000 svifvængjaflugmönnum í heiminum.
Á Íslandi er árlega haldið alþjóðlegt svifvængjamót með keppendum hvaðanæva að úr heiminum, árið 2018 voru keppendur frá Ástralíu, Kanada og USA auk íslenskra keppenda.
Á þessu ári (2019) verður Íslandsmót/alþjóðlega svifvængjamótið að venju, en auk þess verða Íslandsmót vélfisa og Íslandsmót í vélflugi á Helluflugvelli rétt fyrir Helluhátíð Flugmálafélagsins, keppnisdagar verða 9-12 júlí.
Styrkir
Flugmálafélagið hefur í gegnum árin veitt einstaklingum og aðildarfélögum styrki til flugtengdra verka sem stjórn telur samrýmast tilgangi félagsins. Þessi verkefni hafa nær öll varðað þátttöku á Heimsmeistara eða Evrópumeistara flugmótum erlendis eða til eflingar erlendra flugtengsla aðildarfélaga.
-
Hans Kristján Guðmundsson, Ágústa Ýr Sveinsdóttir og Þorri Gestsson tryggðu sér þátttökurétt á Evrópumóti í Svifvængjaflugi en tóku ekki þátt.
-
Sverrir Gunnlaugsson, Guðjón Halldórsson og Erlingur Erlingsson tóku þátt í Heimsmeistaramóti í módelfugi í Þýskalandi.
Aðildarfélög Flugmálafélagsins mættu vera duglegri að sækja styrki til félagins.
Samstarfsverkefni um flugöryggi
Samstarf Flugmálafélagsins við Samgöngustofu í flugöryggismálum hélt áfram á árinu en það hefur gengið mjög vel. Félagið hélt stóran fræðslu- og öryggisfund í samvinnu við Samgöngustofu í apríl. Fundurinn var vel sóttur og var almenn ánægja með hann. Upptökur af fundinum er að finna á vef Samgöngustofu. Það er ljóst að Samgöngustofa og Flugmálafélagið munu auka enn samstarfið á næstu misserum.
Að lokum
Sem fyrr er ljóst að slagkraftur Flugmálafélagins er að aukast. Aðildarfélögum þess hefur fjölgað töluvert á síðustu árum og ljóst að fleiri horfa til Flugmálafélagins sem aðila sem geti hreyft við hlutunum og unnið gagn fyrir sín flugsamfélagið.
Flugmálafélag Íslands mun nú sem endra nær vinna að hagsmunum, uppbyggingu og vexti flugs á Íslandi en jafnframt stuðla að samheldni og góðum samskiptum á milli aðildarfélaga FMÍ. Félagið mun með sama hætti og fyrir tæpum 80 árum vinna að því
“að efla áhuga fyrir flugsamgöngum hjer á landi og til annara landa og útbreiða þekkingu á flugmálum með þjóðinni.”
Samþykkt af stjórn Flugmálafélagsins.