top of page

Ársskýrsla 2016

Lögð fram á ársþingi FMÍ þann 20. september 2017

Samantekt

 

Árið 2016 var hefðbundið í starfsemi Flugmálafélagsins. Stjórn félagsins hélt uppi merkjum flugmála á vettvangi fjölmiðla, stjórnmála, stjórnsýslu og í grasrótinni sjálfri. Helstu viðburðir ársins voru flugdagur á Reykjavíkurvelli, sem féll niður á síðustu stundu vegna verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra, og flughátíðin Allt sem flýgur á Helluflugvelli.

Starfsemi aðildarfélaga var blómleg á árinu og stóð fjöldi aðildarfélaga í stað.

Nýlunda í starfsemi félagsins var fagleg aðkoma að verndaráætlunum Umhverfisstofnunar sem verður fyrirferðarmikill liður á næstu árum ef marka má fyrirætlanir stofnunarinnar sem kynntar voru Flugmálafélaginu á árinu.

Samantekt
Ársþing 2016

Síðasta þing Flugmálafélags Íslands var haldið þann 30. apríl 2016 á Icelandair Hotel Reykjavík Natura, áður Hótel Loftleiðir. Góð mæting var á þingið og var skýrsla stjórnar kynnt auk skýrslur sérgreinadeilda.

Matthías Sveinbjörnsson var endurkjörinn forseti félagsins. Til viðbótar voru sjö (7) stjórnarmenn kjörnir á þinginu og skiptu þeir svo með sér verkum:

  • Friðbjörn Orri Ketilsson, varaforseti

  • Kristján Sveinbjörnsson, varaforseti

  • Kári Kárason, ritari.
     

  • Styrmir Bjarnason

  • Óli Öder

  • Gylfi Árnason, Gjaldkeri

  • Ágúst Guðmundsson

Ársþing 2016
Aðildarfélög

Aðildarfélög FMÍ árið 2016 voru þessi.

  • Atlantsflug ehf

  • Blue West Helicopters

  • Bólstri

  • Félag íslenskra einkaflugmanna

  • Fljúgðu, vélflugfélag

  • Fisfélag Reykjavíkur

  • Flugfélagið Ernir ehf.

  • Flugfélagið Geirfugl ehf.

  • Flugklúbbur Íslands ehf.

  • Flugklúbbur Mosfellsbæjar

  • Flugklúbbur Selfoss

  • Flugskóli Íslands ehf.

  • Garðaflug ehf

  • Keilir Aviation Academy ehf.

  • Mýflug hf.

  • Norðurflug ehf.

  • Svifflugfélag Akureyrar

  • Svifflugfélag Íslands

  • Vélflugfélag Akureyrar

  • Vængir

  • Þyrluþjónustan ehf.

  • Þytur ehf.

  • Þytur,flugmódelfélag

  • Yakar Flugklúbbur Alþýðunna

  • 1974, vélflugfélag

Aðildarfélög
Stefna

Stjórn fundaði reglulega yfir árið og átti góð rafræn samskipti á milli funda. Stjórn vann eftir sömu stefnu og verið hefur síðustu ár sem er tilgreind í stefnu Flugmálafélagsins en þar segir:

 

Stefna Flugmálafélagsins er að efla flug á Íslandi. Félagið vinnur að þeirri stefnu með margvíslegum hætti svo sem flugsýningum, flughátíðum, fræðslu og nánu samstarfi við opinbera aðila. Innan félagsins starfa nær öll félög, samtök og hópar sem tengjast flugstarfsemi og flugíþróttum á Íslandi. Þá hefur Flugmálafélagið frá stofnun haft sporgöngu um að efla flugöryggi með fræðslu, fundarhöldum og góðu samstarfi við aðildarfélög og opinbera aðila í flugöryggismálum.

 


Stjórn mótaði sér einnig þá stefnu að auka jákvæða umfjöllun um flug með auknum samskiptum við fjölmiðla og opinbera aðila.

Hagsmunagæsla

Flugmálafélagið stóð að öflugri hagsmunagæslu fyrir íslenska flugsamfélagið á árinu. Helstu verkefni á því sviði eru regluleg samskipti við opinbera aðila er koma að flugmálum svo sem Samgönguráðuneytið, Samgöngustofu, Isavia og erlend flugmálafélög og regnhlífarsamtök.

 

Félagið hefur haft sig mjög í frammi í nýlegum deilum flugumferðarstjóra sem hafa skaðað verulega aðildarfélög FMÍ sem treysta á stöðugt aðgengi að flugumferðarstjórn yfir Íslandi. Flugmálafélagið átti góð samskipti við aðildarfélög á árinu hvað þau mál varðar.

Flugmálafélagið hélt áfram baráttu fyrir flugvellinum í Reykjavík. Félagið tók þátt í umræðum í fjölmiðlum, fundum með opinberum aðilum, vinnu hjá Isavia, aðstoðaði sérhæfðari hagsmunasamtök.

Fækkun lendingarstaða er félaginu sérstakt áhyggjuefni og lagði stjórn FMÍ hart að yfirvöldum að viðhalda skráðum og óskráðum lendingarstöðum sem víðast á landinu. Lendingarstaðir eru mikilvægt öryggis- og samgöngutæki í almanna og kennsluflugi.

Verndaráætlanir í loftrými

Sú fordæmalausa tillaga kom upp á árinu hjá Umhverfisstofnun að vinna verndaráætlun á landssvæði og leggja samhliða til flugbann í loftrými ofan við landrýmið. Ástæðan var sögð vera varðveisla þagnar, kyrrðar og stuðningur við varplendi fugla.

 

Flugmálafélagið sendi fulltrúa sína inn í þá vinnu með samskiptum, fundum og miðlun gagna. Flugmálafélagið hafnaði með öllu takmörkun á flugi yfir landsvæði nema brýnustu nauðsyn bæri til líkt og tilgreint er í lögum um loftferðir. Þá var farið yfir flugtæknileg atriði við loftrými, flugleiðsögu, hávaðaráðstafanir, högun flugs auk annars sem heppilegra væri að koma á framfæri við flugsamfélagið í stað flugbanns.

 

Flugmálafélagið telur að sú vinna hafi skilað árangri. Stuðningur Samgöngustofu, útivistarfélaga og annarra við tillögur FMÍ var til staðar á fundum og er félagið vongott um að áhrifin skili sér í opnu loftrými og virtum rétti almennings til flugferða um víðáttu Íslands.

 

Að því sögðu hefur Flugmálafélagið þungar áhyggjur af frekari tilraunum Umhverfisstofnunar eða annarra til þess að hefta loftferðir yfir Íslandi á forsendum umhverfisverndar. Flugsamgöngur eru þær umhverfisvænustu þegar kemur að raski, hávaða, vegagerð, mengun, rusli, ágangi og öðru.

Stefna
Hagsmunagæsla
Verndaráætlun í loftrými
Traustur rekstur

Rekstur Flugmálafélagsins ver með hefðbundnum hætti á árinu. Reynt var að auka tekjur með endurnýjun styrktar samninga við atvinnufélög og er flugdagurinn á Reykjavíkurvelli stærsti einstaki samningurinn. Stjórn hélt áfram að leita leiða til þess að fjármagna fullt stöðugildi hjá félaginu en hafði ekki erindi sem erfiði á árinu.

Traustur rekstur
Viðburðir

  • Flughátíðin Allt sem flýgur á Hellu
    Flughátíðin á Hellu var haldin með hefðbundnu sniði og var afar vel sótt. Veður lék við gesti og var mæting loftfara góð. Kvöldverður og öll skipulagning tókst vel. Flugmálafélagið keypti og setti upp salerni við flugstöðina sem koma til með að bæta aðstöðu flugfólks á svæðinu til lengri tíma.

  • Flugöryggisfundir
    Flugmálafélagið stóð að flugöryggisfundi sem var vel sóttur þar sem farið var yfir helstu atriði flugöryggismála og báru þar breyttar sjónflugsleiðir hæst sem lagðar voru á nýjan leik eftir samstarf aðildarfélaga, yfirvalda og Flugmálafélagsins.
     

  • Að fljúga Concorde
    Flugmálafélagið hélt fyrirlestur um flug á Concorde og fékk hinn heimsþekkta flugstjóra Tim Orchard til þess að fjalla um ævilangan feril sinn og reynslu sína af Concorde. Mæting var góð og mikil ánægja með fyrirlesturinn.

  • Flugdagur á Reykjavíkurflugvelli
    Árlegur flugdagur á Reykjavíkurvelli var undirbúinn, fjármagnaður og skipulagður af stjórn félagsins og aðstoðarfólki. Stjórn frétti af fyrirhuguðum aðgerðum flugumferðarstjóra snemma á árinu og hafði fengið óformlegt vilyrði fyrir því að flugdagurinn yrði ekki látinn gjalda aðgerðanna enda um einstakan atburð í flugmálum landsins að ræða. Þegar hins vegar nokkrir dagar voru fram að flugdeginum kom í ljós að ekki var staðið við loforð í þeim efnum.

    Stjórn gerði sitt allra besta til þess að fá deiluaðila til þess að styðja flugdaginn að málum en hafði ekki erindi sem erfiði og kaus því að aflýsa flugdeginum á síðustu stundu. Ekki skapaðist frekara tækifæri til þess að halda flugdaginn það sumarið og varð því ekkert af Flugdegi 2016.

    Þess má geta að Flugdagur 2017 tókst með eindæmum vel og var fjöl sóttasti flugdagur í sögu Flugmálafélagsins.

Viðburðir
Innlend starfsemi​

Til viðbótar við hefðbundna hagsmunagæslu þá hélt Flugmálafélagið áfram rekstri á bensíndælu í Fluggörðum til þess að lækka bensínkostnað aðildarfélaga. Dælan er rekin í samstarfi við Atlantsolíu og var samstarfið til fyrirmyndar á árinu. Stjórn telur að dælan hafi markað kaflaskil í almannaflugi þar sem flugmenn geti nú nálgast bifreiðaeldsneyti á flugvallarsvæðinu og með því lækkað verulega kostnað við hvern flugtíma. Segja má að þar með sé snúið við þeirri öfugþróun síðustu ára sem valdið hefur samdrætti í flugtímum per flugmann.

Þá vinnur FMÍ að því að fjölga dælum víðar um landið.

Starfsemi
Erlend starfsemi​

Flugmálafélagið hefur alla tíð tekið virkan þátt í erlendu starfi flugmálafélaga til þess að viðhalda og efla tengsl Íslands við önnur lönd. Þau tengsl eru verðmæt þegar kemur að því að læra af mistökum og árangri annarra landa. Sérstaklega er þessi starfsemi mikilvæg þegar kemur að regluverki og lagasetningu en íslenskt regluverk hefur til þessa þótt heldur stíft og óþarfalega langt gengið við þýðingu og innleiðingu erlendra reglna hérlendis en Flugmálafélagið hefur átt samskipti við stjórnvöld og sótt leiðsögn til erlendra aðila hvað regluverk snertir.

Á liðnu ári var erlendi starfsemi með hefðbundnu sniði. Sérstaklega má þó nefna:
 

  • Vélflugdeild sótti fundi AOPA erlendis.

  • Svifflugdeild sótti fundi Svifflugdeilda Flugmálafélaga Norðurlandanna.

  • Fisdeildin sótti fund Svifdrekadeilda Flugmálafélaga Norðurlandanna.

Flugmálafélagið er með fulltrúa í öllum deildum Alþjóða Flugmálafélagsins FAI. Þessir fulltrúar fylgjast með því sem er að gerast í hverri deild með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Þá sækja fulltrúar fundi deilda þegar hentar. FMÍ á einnig fulltrúa í heilbrigðisdeild ICMP.

Ágúst Guðmundsson var endurkjörinn í framkvæmdastjórn FAI árið 2016 og hafði þá setið í framkvæmdastjórn frá 2014 sem fulltrúi Flugmálafélags Íslands.

Flugmálafélagið annast útgáfu FAI Sporting Licence til félagsmanna aðildarfélaga en það skírteini er skilyrði fyrir þátttöku í alþjóðlegum mótum FAI.

Þátttaka íslenskra flugmanna á alþjóðamótum hefur aukist og fagnar Flugmálafélagið þeirri þróun.

Á Íslandi er árlega haldið alþjóðlegt svifvængjamót með keppendum hvaðanæva að úr heiminum, árið 2016 voru keppendur frá Ástralíu, Nýja Sjálandi, Ísrael, Rússlandi, Kanada, Brazilíu auk fjölda Evrópulanda.

Erlend starfsemi
Styrkir​

Flugmálafélagið hefur í gegnum árin veitt einstaklingum og aðildarfélögum styrki til flugtengdra verka sem stjórn telur samrýmast tilgangi félagsins. Þessi verkefni hafa nær öll varðað þátttöku á flugmótum erlendis eða til eflingar erlendra flugtengsla aðildarfélaga. Á liðnu ári voru eftirfarandi styrkir veittir.

  • Sverrir Gunnlaugsson og Guðjón Halldórsson
    Flugmódelfélaginu Þyti
    Þáttaka á F3F World Model Glider Championship 2016 í Danmörku
    100.000 kr.
     

  • Haraldur Diego
    AOPA Íslandi
    Þáttaka í AOPA World Assembly í Chicago
    125.000 kr.
     

  • Ágústa Ýr Sveinsdóttir og Hans Kristján Guðmundsson
    Fisfélagi Reykjavíkur
    Evrópumót í svifvængjaflugi
    100.000 kr.

Þá skal þess getið að FMÍ hlaut 1.000 USD styrk til þess að reisa minnisvarða við Hótel Loftleiðir.

Styrkir
Rafræn verkefni

Flugmálafélagið einbeitti sér á árinu í auknum mæli á netinu með miðlun upplýsinga á Facebook, endurnýjun vefsíðu, upptöku tölvupóstlista. Þá aðstoðaði stjórn félagsins ýmis aðildarfélög í upplýsingamiðlun á netinu með það fyrir augum að auka umfjöllun um flug á samfélagsmiðlum.

Rafræn verkefni
Samstarfsverkefni um flugöryggi

Flugmálafélagið gekk til samstarfs við Samgöngustofu í flugöryggismálum og stofnaði sérstakan hóp á Facebook um flugöryggismál. Rúmlega 500 flugmenn hafa skráð sig í hópinn og hefur átakið tekist afar vel. Til varð vettvangur til umræðna um flugatvik, umhverfi flugsins og annað er varðar flugöryggi.

Á árinu tóku tugir flugmanna þátt í umræðum ásamt starfsmönnum Samgöngustofu, rekstraraðilum aðildarfélaga og nefndarmanna hjá Rannsóknarnefnd Samgönguslysa. Óhætt er að segja að framtakið hafi skapað nýjan veruleika í flugöryggismálum.

Þá lýsir Flugmálafélagið sérstakri ánægju með störf Kára Guðbjörnssonar hjá Samgöngustofu sem hefur sýnt almannaflugi mikinn stuðning í öryggismálum og hlakkar félagið til þess að efla samstarfið á komandi árum.

Samstarf um flugöryggi
Mikilvægi flugs og grasrótar

Á síðustu misserum hefur mörgum orðið tíðrætt um að ferðaþjónustan sé orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin. Hún hafi komið okkur upp úr öldudal hrunsins og skapað flest störf á síðastliðnum árum. Þetta má til sannsvegar færa en sjaldan er bent á þá staðreynd að flugið skilar mestu af þessu innan ferðaþjónustunnar, eins og hún er skilgreind. Staðreyndin er sú að
ferðaþjónustan hefði lítið til að byggja á án öflugra flugsamgagna. Flugið er bæði burðarás og bakbein ferðaþjónustunnar.

 

Það er ekki sjálfgefið að öflugum flugsamgöngum sé viðhaldið við landið og í grunninn byggja þær á öflugum félögum sem uxu upp úr grasrót flugs á Íslandi. Grasrótin er mikilvæg til frekar vaxtar flugsins en það lætur nærri að bara á Reykjavíkurflugvelli séu 500 nemendur í verklegu flugnámi og 200 nemendur í bóklegu námi. Þess fyrir utan eru ungir flugmenn að afla sér reynslu sem nýtist síðar meir í starfi. Nú er komin upp sú staða að skortur er á flugmönnum með tilskilin réttindi og reynslu. Það er rétt að taka þá stöðu alvarlega og skoða með hvaða hætti er hægt að efla enn frekar
nýliðun í fluginu.


Það er á þessum uppgangstímum sem baráttan fyrir öflugri grasrót, eflingu áhuga á flugi með ungu kynslóðinni og almennt jákvæðri umræðu og umfjöllun um flug á Íslandi er gríðarlega mikilvæg. Flugið þrífst ekki án öflugar grasrótar – grasrót þarf andrými og góð skilyrði til þess að lifa.


Mikilvægi grasrótar
Að lokum

Sem fyrr er ljóst að slagkraftur Flugmálafélagins er að aukast. Aðildarfélögum þess hefur fjölgað úr 18 í 25 á síðustu árum og ljóst að fleiri horfa til Flugmálafélagins sem aðila sem geti hreyft við hlutunum og unnið gagn fyrir sín flugsamfélagið.

 

Félagið fagnaði 80 ára afmæli sínu á árinu og er sá áfangi til marks um mikilvægi félagsins sem hornsteinn flugmála á Íslandi.

 

Flugmálafélag Íslands mun nú sem endra nær vinna að hagsmunum, uppbyggingu og vexti flugs á Íslandi en jafnframt stuðla að samheldni og góðum samskiptum á milli aðildarfélaga FMÍ. Félagið mun með sama hætti og fyrir tæpum 80 árum vinna að því

 

“að efla áhuga fyrir flugsamgöngum hjer á landi og til annara landa og útbreiða þekkingu á flugmálum með þjóðinni.”

Að lokum

Samþykkt af stjórn Flugmálafélagsins.

Skýrslur deilda:
bottom of page